Tengiliðir eru íslenskir læknanemar sem taka þátt í sumarstarfi Alþjóðanefndar og eru erlendum skiptinemum sem koma til landsins innan handar.
Tengiliðaskráning er í lok apríl og hægt er að velja um að vera tengiliður, annaðhvort í júlí eða ágúst. Að skráningunni lokinni er hver tengiliður settur í samband við einn skiptinema. Tengiliðurinn aðstoðar sinn nema við að komast til og frá BSÍ við komu og brottför en skiptinemarnir gista í húsnæði við Klepp á meðan dvölinni stendur. Auk þess svarar tengiliðurinn spurningum nemans eftir bestu getu og tekur þátt í félagsstarfi Alþjóðanefndar um sumarið. |
Tengiliðastarf er frábær leið til þess að gera sumarið skemmtilegt þar sem tengiliðir fá að taka þátt í öllum sumarviðburðum Alþjóðanefndar þeim að kostnaðarlausu. Í því felst m.a. “National Food and Drink Party”, helgarferð út á land, grillveislur, fjallgöngur, bjórkvöld og margt fleira.
Dagskráin er þéttpökkuð af skemmtilegum viðburðum en utan hennar gefast fjölmörg tækifæri til þess að fara í sund, bíó, kaffihús eða hvað annað sem manni dettur í hug með öðrum tengiliðum og skiptinemum. Tengiliðastarfið er einstakt tækifæri til þess að víkka sjóndeildarhringinn og kynnast fólki frá ólíkum menningarheimum. Með því að gerast tengiliður eignast maður nýja vini – bæði íslenska og erlenda. Auk þess fá læknanemar sem hafa verið tengiliðir forgang fram yfir aðra nema þegar kemur að því að sækja um skiptinám. |