Íslenskir læknanemar eiga kost á að fara í fjögurra vikna starfsnám á erlendum spítala. Þetta er bæði einstakt tækifæri til þess að sjá hvernig læknisfræðin er iðkuð út í heimi og að kynnast menningu og fólki viðkomandi lands í gegnum líf, leik og störf. Á hverju ári fara í kringum 13.000 læknanemar frá meira en 90 löndum í sumarskipti á vegum IFMSA.
|
Allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi
Allir íslenskir læknanemar geta sótt um skiptinám, bæði preklínískir og klínískir. Hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að skilyrði landa geta verið misjöfn. Ekki öll lönd taka á móti preklínískum nemum og í sumum löndum eru strangar tungumálakröfur. Því er mikilvægt að kynna sér vel skilyrði landanna áður en sótt er um skipti og ganga úr skugga um að landið sem þú hefur áhuga á geti tekið á móti þér. Einnig er gott að hafa í huga að í flestum löndum eru fleiri en ein nefnd þ.e. það eru fleiri en ein borg eða bær sem kemur til greina og þar geta líka verið ólíkar kröfur. Nefndarmeðlimir Alþjóðanefndar eru meira en fúsir til að aðstoða ykkur við að fara í gegnum skilyrðin. Svo getur líka verið sniðugt að kynna sér hvernig félagslífið er á viðkomandi stað því það getur verið misjafnt eftir löndum og jafnvel borgum/bæjum hversu öflugt það er. Alþjóðanefnd mælir hiklaust með að þið kynnið ykkur reynslusögur íslenskra nema sem hafa farið í skipti seinustu sumur. Inni á síðu IFMSA er að finna upplýsingar um skiptinámið í hverju landi fyrir sig ásamt þeim skilyrðum sem landið setur. Skylda er að kynna sér skilyrðin áður en sótt er um skiptinámið. Þau eru að finna hér. Góðar upplýsingar um skiptináms hvers lands er að finna hér. |
Tvær gerðir samninga
Á hverju ári gera SCOPE virk lönd innan IFMSA samninga um skipti sín á milli á alþjóðlegum fundi í ágúst, svokölluðum ágústfundi (August meeting). Því fer umsóknarferli íslenskra nema helst fram fyrir ágústfundinn. Gerðar eru tvær gerðir samninga þ.e. einhliða og tvíhliða samningar. Einhliða samningur (unilateral) – Hér er gerður samningur fyrir einungis einn nema. Dæmi um þetta er t.d. ef Alþjóðanefnd myndi gera unilateral samning við Ítalíu. Þá myndum við senda nema út til Ítalíu án þess að fá ítalskan nema til Íslands eða öfugt. Fari nemi í skiptinám á einhliða samningi þá greiðir hann nefndinni sem tekur á móti honum fyrir skiptinámið. Verðið er yfirleitt á bilinu 250-350 €. Tvíhliða samningur (bilateral) – Þetta er algengari gerð samninga. Tvíhliða samningar eru þess eðlis að gerður er samningur fyrir tvo nema frá sitthvoru landi. Dæmi um þetta er t.d. ef Alþjóðanefnd myndi gera bilateral samning við Ítalíu. Þá myndum við senda íslenskan nema út til Ítalíu og í staðinn fá ítalskan nema til Íslands. Fari nemi í skiptinám á tvíhliða samningi þá greiðir hann Alþjóðanefnd skiptinámsgjaldið, 40.000 kr. |
Einhliða samningur
Tvíhliða samningur
|
Hvað er innifalið í skiptinámsgjaldinu?
Í skiptinámsgjaldinu er innifalið húsnæði og ein máltíð á dag. Í sumum löndum er einnig innifalinn styrkur til að komast á milli staða t.d. á formi strætókorts eða þess háttar. Nefndir landanna sjá einnig um að skipuleggja félagslíf á meðan skiptunum stendur en það er getur verið misjafnt eftir löndum. Einnig eru gjarnan skipulagðir stærri viðburðir sem maður þarf að borga aukalega fyrir ef maður hefur áhuga á að taka þátt. |
Skiptinámið er metið til eininga
Ef þú ferð í skiptinám sem klínískur nemi þ.e. á 4-5. ári þá er skiptinámið metið til eininga á valtímabilinu á 6. ári. Þá er mikilvægt að senda allar upplýsingar á umsjónakennara valtímabilsins en við munum deila með ykkur öllum helstu gögnum til þess. Hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að ef þið viljið fá skiptinámið metið til eininga þá er ekki hægt að sækja um styrk fyrir skiptináminu hjá Stúdentasjóði. |